Ísbjörninn sem gekk á land á Skagatá í Skagafirði er rólegur að sögn sjónarvotta og situr eins og er í æðarvarpinu við Hraun. Þar mun hann hafa gætt sér á eggjum úr varpinu og varpið er því í mikilli hættu.
Það var tólf ára stúlka Karen Helga Steinsdóttir, sem uppgötvaði að hann væri kominn á land á Skaga um hálfeitt í dag. Eftir því sem systir hennar, Herdís, segir var fólk að hreinsa dún að Hrauni þegar hundurinn á heimilinu æddi út í æðarvarp. Þar má hann ekki vera vegna varpsins og því elti stúlkan hann þangað. Þar sá hún eitthvað hvítt sem hún taldi í fyrstu vera áburðarpoki en brá heldur betur þegar í ljós kom að um ísbjörn var að ræða.
Lögregla hefur lokað af svæðinu og íbúar á nærliggjandi bæjum eiga að halda sig inni. Að sögn lögreglunnar á Sauðárkróki eru allir tiltækir lögreglumenn á staðnum en ekki liggur fyrir hvort björninn verður tekinn af lífi eins og björninn sem uppgötvaðist á Þverárfjalli, ekki langt þarna frá, fyrir um tveimur vikum.