Fótbolti

Uppeldisbætur Kjartans Henrys of háar

Kjartan Henry í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Kjartan Henry í leik með íslenska U-21 landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Andreas Thomsson, aðstoðarþjálfari sænska 1. deildarliðsins Åtvidaberg, segir að það hafi verið mikil synd að Kjartan Henry Finnbogason var ekki lengur hjá félaginu.

Kjartan Henry fór til félagsins í sumar og spilaði með liðinu samtals sex leiki og skoraði í þeim eitt mark.

Åtvidaberg hafði þó ekki efni á að greiða þær uppeldisbætur sem skoska liðið Glasgow Celtic fór fram á fyrir hann. Kjartan var á mála hjá Celtic frá 2005-2007.

„Því miður, því hefði hann verið hjá okkur heilt undirbúningstim hefði hann verið góð viðbót við leikmannahópinn. En við höfum ekki efni á að greiða þær uppeldisbætur sem Celtic fór fram á fyrir hann. Það hefði kostað okkur sjö stafa tölu," sagði hann.

Af því má ráða að um er að ræða að minnsta kosti tíu milljónir íslenskra króna.

Heimildir Vísis herma að upphæðin sem Celtic fer fram á sé reyndar talsvert hærri en tíu milljónir króna, gangi hann til liðs við erlent félag. Upphæðin lækkar svo umtalsvert ef Kjartan ákveður á endanum að ganga til liðs við íslenskt félag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×