Enski boltinn

Capello: Mjög erfið ákvörðun

Elvar Geir Magnússon skrifar
Fabio Capello og Rio Ferdinand.
Fabio Capello og Rio Ferdinand.

Fabio Capello segir að það hafi verið mjög erfið ákvörðun að velja næsta fyrirliða Englands. Í dag var tilkynnt að John Terry, varnarmaður Chelsea, myndi taka við bandinu.

Terry, Steven Gerrard, Rio Ferdinand og David Beckham hafa allir fengið að bera bandið síðan Capello var ráðinn landsliðsþjálfari Englands. Valið stóð á endanum milli Terry og Ferdinand en sá síðarnefndi verður varafyrirliði.

„Persónuleiki Terry var aðalástæða þess að hann varð fyrir valinu," sagði Capello á blaðamannafundi í dag. John Terry sagði að það skipti sig mjög miklu máli að verða fyrir valinu.

„Það eru margir leiðtogar í liðinu. Það er mikið afrek fyrir mig að fá bandið og gerir mig mjög stoltan. Þjálfarinn kallaði allan hópinn saman og tilkynnti þessa ákvörðun fyrir öllum í einu. Það kom mér mjög á óvart þegar hann tilkynnti að ég hefði orðið fyrir valinu þar sem ég hafði heyrt að Rio yrði valinn," sagði Terry.

England leikur á morgun vináttulandsleik gegn Tékklandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×