Innlent

Þakkaði Færeyingum fyrir aðstoðina

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jørgen Niclasen utanríkisráðherra Færeyinga.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jørgen Niclasen utanríkisráðherra Færeyinga.

Færeyingar sýndu Íslendingum einstakan vinarhug þegar þeir ákváðu að lána 300 milljónir danskra króna í gjaldeyrisvaraforða. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir nýtti tækifærið og þakkaði Jørgen Niclasen, utanríkisráðherra Færeyja fyrir aðstoðina, á blaðamannafundi sem þau héldu í Þjóðmenningarhúsinu í dag.

Ingibjörg átti fund með ráðherranum í dag, þar sem rætt var um fríverslunarsamning milli Færeyja og Íslands, svokallaðan Hoyvíkursamning, sem Ingibjörg sagði að tæki meðal annars til frjálsra viðskipta með landbúnaðarvörur. Þá var rætt um samstarf á sviði heilbrigðismála, rætt um loðnuveiðar Færeyinga við Íslandsstrendur og Hatton Rockall málin þar sem Íslendingar og Færeyingar eiga sameiginlega hagsmuni í deilu við Breta og Íra. Einnig var rætt um áhuga Færeyinga á að gerast aðilar að EFTA.

Niclasen gerði að umtalsefni þá löngu vináttu sem hefði ríkt á meðal þjóðanna. Aðspurður sagðist hann telja að Íslendingar gætu lært af þeirri efnahagskreppu sem Færeyingar lentu í við upphaf 10. áratugar síðustu aldar. Kreppan þar hefði þó verið ólík að því leytinu til að íslenska bankakerfið hefði hrunið mun hraðar en það færeyska gerði á sínum tíma. Hann sagði að Færeyingar hefðu farið langt á þeirri von og trú að þeir myndu standa sig. Þá trú mættu Íslendingar aldrei missa.

Lánið til Íslendinga nemur 300 milljónum danskra króna, en Niclasen sagði að landsframleiðsla Færeyinga næmi 12 milljörðum króna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×