Menning

Söngvar Berlins í Salnum

Kristjana Stefánsdóttir syngur lög Irvings Berlin í Salnum á laugardagskvöld.
Kristjana Stefánsdóttir syngur lög Irvings Berlin í Salnum á laugardagskvöld.

Izzy Bailine, betur þekktur sem Irving Berlin, var einn afkastamesti höfundur sönglaga í amerískri dægurmenningu. Hann fluttist sem smábarn frá Rússlandi til Bandaríkjanna og hafði ofan af fyrir sér á unglingsárunum sem syngjandi þjónn á sumum af vafasömustu knæpum neðri hluta Manhattan. Þar komst hann að því að með því að láta hripa lögin sín á pappír, gat hann selt þau til nótnaútgefenda fyrir allnokkurt fé, væru þau sæmilega sönghæf. Áður en yfir lauk hafði Berlin sett saman yfir 1.500 lög, sem sum hver eru löngu sígild: Blue Skies, Cheek to Cheek og Putting on the Ritz eru aðeins örfá heimsfrægra laga hans.

Berlin var einn margra sönglagasmiða í Tin Pan Alley sem voru aðfluttir gyðingar úr borgum Gamla heimsins. Kristjana Stefánsdóttir söngkona, Kjartan Valdemarsson píanóleikari, Gunnar Hrafnsson kontrabassaleikari og Pétur Grétarsson trommuleikari hafa sett saman dagskrá með tónlist Irvings Berlin fyrir Tíbrárröð Salarins í Kópavogi. Áður hafa þau boðið upp á tónlist Cole Porter og Richard Rodgers á sama vettvangi og munu í vor spila músík frægasta höfundar Bandaríkjamanna, George Gershwin.

Tónleikarnir með verkum Irvings Berlin verða á laugardagskvöld og hefjast klukkan 20. Auk þeirra fjórmenninga sem koma fram, er von á leynigesti á tónleikana. „Ekki er hægt að gefa upp hver það er,“ segir Pétur Grétarsson, „en óhætt er að upplýsa að hitabylgja kemur við sögu og ótrúlegur metnaður söngvara til að gera betur en vel.“ Semsagt gott, djassað og gleðilegt í Salnum á laugardagskvöld.- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×