Íslenski boltinn

ÍBV með fullt hús í 1. deild

Elvar Geir Magnússon skrifar
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.

Það var nóg af mörkum í 1. deild karla í kvöld þegar sjötta umferðin fór fram. ÍBV er með fullt hús stiga en liðið vann góðan 4-1 útisigur á Víkingi í kvöld.

Þórhallur Hinriksson kom Víkingi yfir úr víti en fékk rautt spjald skömmu síðar. Pétur Runólfsson, Atli Heimisson, Matt Garner og Ingi Rafn Ingibergsson skoruðu mörk Eyjamanna en Víkingar luku leiknum níu á vellinum eftir að Runólfur Sigmundsson fékk rauða spjaldið.

ÍBV hefur fjögurra stiga forskot á Selfoss sem gerði 1-1 jafntefli gegn Stjörnunni á heimavelli í kvöld. Selfoss er með 14 stig í öðru sæti en Stjarnan í því þriðja með 11 stig. Fjarðabyggð og Leiknir gerðu 2-2 jafntefli á Eskifirði. Eftir markalausan fyrri hálfleik komu Halldór Kristinn Halldórsson og Jakob Spangsberg Leikni í tveggja marka forystu. Sveinbjörn Jónasson skoraði tvívegis fyrir heimamenn og jafnaði.

Leiknir er með tvö stig á botni deildarinnar með jafnmörg stig og KS/Leiftur sem tapaði fyrir KA í kvöld. Akureyringar unnu 2-1 sigur á heimavelli sínum. Þá vann Víkingur Ólafsvík 2-1 sigur á Þór og Haukar gerðu 2-2 jafntefli við Njarðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×