Birkir Már lagði knattspyrnuskóna á hilluna á dögunum, 39 ára gamall, eftir 20 ára feril. Síðasti leikurinn var 6-1 sigur Vals á ÍA í lokaumferð Bestu deildar karla.
Þjálfarar Birkis Más eru margir eftir svona langan feril. Einn stendur öðrum ofar. Birkir segir Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, eiga mikið í sínum ferli, án hans væri hann að sprikla í neðri deildum.
„Þeir standa allir upp úr á sinn hátt. En Willum er sá sem gerði mig að bakverði og var þjálfari þegar ég vann fyrsta Íslandsmeistaratitilinn. Mér finnst hann geggjaður, hann er alltaf í miklu uppáhaldi. Óli Jó er líka mjög eftirminnilegur og skemmtilegur. Svo Lars og Heimir, þetta eru einhvern veginn allir,“ segir Birkir.
„Willum er alltaf aðeins efst í huga hjá mér af því það var hann sem sá bakvörðinn í mér. Ef ég hefði ekki orðið bakvörður, þá hefði ég sennilega verið kantmaður í 1. eða 2. deild, max. Það var helvíti mikið gæfuspor að hann hafi séð að ég gæti spilað bakvörð,“
Þarf Willum þá ekki að fara að snúa aftur á völlinn?
„Er þetta ekki komið gott af pólitík og setja hann út á völl aftur? Ég held að það sé kominn tími til,“ segir Birkir Már kímnislega.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum efst í greininni. Einnig má hlusta á það á öllum helstu hlaðvarpsveitum í Besta sætinu, þar á meðal hér að neðan.