Fótbolti

Tilfinningaþrungin stund fyrir Grant og Lampard

Grant kraup á kné til að minnast afa síns á helfarardaginn
Grant kraup á kné til að minnast afa síns á helfarardaginn NordcPhotos/GettyImages

Avram Grant, stjóri Chelsea, lét tilfinningum sínum lausan tauminn í kvöld þegar hann náði að gera nokkuð sem Jose Mourinho tókst aldrei - að koma Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Sjónvarpsmenn Sky spurðu Grant strax eftir leik hvort þetta þýddi að Chelsea væri komið með annan "Special One" (sá einstaki) í stjórastólinn og vísuðu í nafnið sem Jose Mourinho gaf sjálfum sér þegar hann tók við liðinu.

"Það er bara einn Special One," sagði Grant í léttum dúr. "Ég er mjög, mjög ánægður að sjálfssögðu. Það er alltaf frábært þegar maður getur skrifað nýja kafla í söguna, sérstaklega hér á Englandi - og hjá Chelsea. Þetta hefur verið frábært í ár. Ég hafði betur gegn frábæru liði Rafa og þú verður að vera mjög klókur á móti honum ef þú ætlar að vinna. Okkur tókst það og því er ég ánægður," sagði Grant, en hann er gyðingur og því var dagurinn í dag honum sérstakur.

Í dag er árlegur dagur helfararinnar, dagur þar sem gyðingar minnast þeirra sem féllu í helförinni í stríðinu. Grant féll á hnén eftir leikinn í geðshræringu.

"Ég var að sjá þetta í sjónvarpinu aftur og verð að segja að þetta var dálítið hallærislegt," sagði Grant í léttum dúr, en bætti við;

"Í dag er helfarardagurinn og ég átti afa sem féll í helförinni og var því að minnast hans. Þetta var tilfinningaþrungið augnablik fyrir mig," sagði Grant.

Hann var ekki sá eini sem átti tilfinningaþrunginn dag, því Frank Lampard skoraði til minningar um móður sína sem lést á dögunum.

"Frank var einn af okkar bestu mönnum í dag og gaf allt sem hann átti. Það sýnir hve mikla virðingu hann ber fyrir liðinu að hann skuli hafa átt slíka frammistöðu og ég er eiginlega orðlaus," sagði Grant.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×