Ísraelskir fornleifafræðingar hafa fundið rústir rómversks hofs undir grunni kirkju á Zippori í Ísrael sem var höfuðborg Galíleu á rómverskum tíma. Hofið hefur verið rænt og ruplað í fornöld og stendur því aðeins grunnurinn nú eftir.
Byggingin er staðsett sunnan aðalgötu bæjarins. Hofið sem líklega var helgað Seifi og örlagagyðjunni var með skreyttri framhlið og inn í lokuðum húsgarði. Rómversk mynt fannst á staðnum.
Kirkjan sem var ofan á hofinu var sjálf nýlega grafin upp af fornleifafræðingum. Talið er að hún sé frá býsanískum tíma en hofið frá annarri öld eftir krist. Fornleifafræðingar telja að hofið geti varpað ljósi á trúarlíf í borginni.
Zippori var blómstrandi borg á rómverskum og býsantískum tíma og hafa verið fornleifauppgreftir þar síðan 1930. Staðurinn er einn sá mikilvægasti fyrir rannsóknir á mósaíkmyndum í austurhluta rómverska heimsveldisins en þar hafa fundist meira en 40 mósaíkmyndir frá rómverskum tíma.