Fótbolti

Kjartan tryggði Sandefjord sigur á toppliðinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason í leik með íslenska U-21 landsliðinu.
Kjartan Henry Finnbogason í leik með íslenska U-21 landsliðinu. Nordic Photos / AFP

Sandefjord vann í kvöld 2-1 sigur á toppliði Start í norsku B-deildinni í knattspyrnu. Kjartan Henry Finnbogason skoraði sigurmark leiksins í síðari hálfleik.

Start komst yfir snemma í leiknum en Sandefjord jafnaði metin er leikmaður Start skoraði sjálfsmark undir lok fyrri hálfleiksins. Branislav Milicevic, fyrrum leikmaður Keflavíkur, lagði upp mark Start í leiknum.

Þetta var níunda mark Kjartans í deildinni en hann hefur skorað einu minna en Allan Borgvardt, leikmaður Bryne og fyrrum FH-ingur.

Start er á toppi deildarinnar með 51 stig er 23 umferðum er lokið. Sandefjord er í mjög góðum málum en liðið er með tólf stiga forskot á liðið í fjórða sæti þegar sjö umferðir eru eftir. Þrjú efstu liðin komast beint upp í efstu deild þar sem liðum verður fjölgað í deildinni á næsta ári.

Odd Grenland, sem Árni Gautur Arason leikur með, er í öðru sæti deildarinnar, stigi á eftir Start.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×