Menning

Dagur ljóðskálds og ljóðarýnis

Páll Baldvin Baldvinsson skrifar
Sigurður Pálsson ljóðskáld fagnar með eiginkonu sinni, Kristínu Jóhannesdóttur, á Bessastöðum í gær.
Sigurður Pálsson ljóðskáld fagnar með eiginkonu sinni, Kristínu Jóhannesdóttur, á Bessastöðum í gær. Vísir/Anton Brink
Forseti Íslands afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin á Bessastöðum í gær að viðstöddu fjölmenni. Sigurður Pálsson skáld hlaut verðlaunin í flokki fagurbókmennta fyrir Minnisbók sína og Þorsteinn Þorsteinsson gagnrýnandi hlaut verðlaunin í flokki fræðirita og bóka almenns eðlis fyrir rit sitt um höfundarverk Sigfúsar Daðasonar skálds, Ljóðhús.

Ljóðið átti sinn dag í gær; Sigurður hefur verið mikilvirkt ljóðskáld í hartnær fjóra áratugi og sent frá sér fjölda ljóðabóka sem hann raðar í efnistengdar syrpur, jafnframt því sem hann hefur samið skáldsögur og leikverk og verið afkastamikill þýðandi úr frönsku. Þorsteinn hefur á síðari árum staðið fyrir útgáfum á ritsöfnum skálda og rithöfunda, en telja verður verk hans um skáldferil Sigfúsar Daðasonar kórónu á langri vegferð rýnandans um heim ljóðlistarinnar frá unga aldri.

Minnisbók Sigurðar rekur þroskaár hans í París frá því hann heldur utan til náms, hvernig ljóðasmíði hans endurspeglar reynslu og umhverfi hins unga skálds. Þorsteinn rekur með ýmsum dæmum og hliðstæðum hvernig evrópsk ljóðahefð mótaði Sigfús Daðason, eitt helsta ljóðskáld síðustu aldar, einkum hin franska ljóðhefð. Voru þeir félagar að vonum ánægðir eftir afhendinguna í veisluskálanum á Bessastöðum í gær.

Bókmenntaverðlaunin nema 750 þúsund krónum í hvorum flokki, auk þess sem afhent eru skraut­rituð verðlaunaskjöl og verðlaunagripir hannaðir af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens, – opin bók á granítstöpli með nafni verðlaunahöfundar og bókar hans. Þetta er í nítjánda sinn sem verðlaunin eru veitt en til þeirra var stofnað af Félagi bóka­útgefenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×