Menning

Einar Áskell fer á svið

Bernd Ogrodnik og sænski pjakkurinn.
Bernd Ogrodnik og sænski pjakkurinn.

Hinn þýskættaði Bernd Ogrodnik býr í Eyjafirði þar sem hann vinnur sýningar sínar og gerir brúður fyrir ýmsa aðila. Í lok ágúst verður nýjasta verk hans, Klókur ertu Einar Áskell, frumsýnt í Þjóðleikhúsinu. Verkið byggir á tveimur bókum eftir Svíann Gunillu Bergström og er hugmyndin að sýningunni komin frá henni sjálfri.

„Hún hafði nú bara samband eftir að hafa séð innslag um mig í þættinum Út og suður, sem sýndur var í sænska sjónvarpinu,“ segir Bernd. Gunilla kom til landsins í fyrra til að hitta Bernd í Eyjafirði og ræða möguleika á samstarfi. Ýmislegt er á prjónunum. „Það eru sjónvarpsþættir um Einar Áskel mögulegir í framtíðinni, en það er bara of snemmt að tala um það,“ segir Bernd. „Fyrst á dagskrá er sviðsverkið. Það þekkja allir krakkar Einar Áskel svo þetta er mjög spennandi allt saman.“

Bernd segir sýninguna um 40 mínútna langa og hugsaða fyrir leikskólabörn. Eins og áður segir verður verkið frumsýnt í lok ágúst og verður Gunilla viðstödd frumsýninguna. Líklega verður blásið til málþings um verk Gunillu en bækur hennar um Einars Áskel hafa selst í um 90 þúsund eintökum á Íslandi. Tuttugu og ein bók um pjakkinn uppátækjasama, vini hans og pabba gamla, hafa komið út á íslensku, allar í þýðingu Sigrúnar Árnadóttur. Einar heitir Alfons Åberg á frummálinu og bækurnar um hann eru fyrir löngu orðnar sígildar um öll Norðurlönd.

- glh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.