Fótbolti

Mourinho: Ég er hér til að læra

Elvar Geir Magnússon skrifar
Jose Mourinho.
Jose Mourinho.

„Það eru margir frábærir þjálfarar á Ítalíu og ég er hér til að læra, ekki láta sem einhver prófessor," sagði Jose Mourinho í ítarlegu viðtali sem birtist í ítölsku dagblaði á morgun.

Mourinho er tekinn við stjórnartaumunum hjá Inter. „Ég vil læra eitthvað nýtt á hverjum degi. Ég er bara þannig persónuleiki. Það eru forréttindi að fá að starfa á Ítalíu og mæta liðum með svona frábæra þjálfara," sagði Mourinho.

„Sem stendur eru leikmenn mínir ekki í sínu besta formi en ég sé mun á þeim á hverjum degi. Úrslitin í æfingaleikjunum skipta ekki máli, markmið okkar er að gera vel þegar mótið fer af stað."

Um daginn sýndi hópur stuðningsmanna Inter reiði sína þegar Mourinho lét liðið æfa bak við luktar dyr en æfingin átti upphaflega að vera opin. „Þetta er eins og að vilja sjá Hollywood myndirnar áður en þær koma í bíó. Stundum er það ekki hægt. Fólk þarf að sýna þolinmæði og kaupa svo miða," sagði Mourinho.

Hann er ekki þekktur fyrir að tala mikið um einkalíf sitt en kemur þó aðeins inn á það í viðtalinu. „Konan mín er frábær félagi fyrir þjálfara. Hún hefur engan áhuga á fótbolta og vill ekki tala um fótbolta. Ég ræði því starf mitt ekki við hana þegar ég kem heim," sagði Mourinho.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×