Fótbolti

Stórsigur Stabæk - Gylfi skoraði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Einarsson, leikmaður Brann, skoraði í dag.
Gylfi Einarsson, leikmaður Brann, skoraði í dag.
Gylfi Einarsson skoraði er Brann gerði 1-1 jafntefli við Viking en Veigar Páll Gunnarsson lagði upp tvö mörk í 6-0 stórsigri Stabæk á Strömsgodset.

Stabæk er nú með sex stiga forystu á toppi norsku úrvalsdeildarinnar en Fredrikstad getur minnkað það í fjögur stig ef liðið vinnur Rosenborg nú í kvöld.

Veigar Páll lék allan leikinn fyrir Stabæk þar sem Daniel Nannskog skoraði fjögur mörk. Pálmi Rafn Pálmason kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik.

Ólafur Örn Bjarnason, Kristján Örn Sigurðsson, Gylfi Einarsson og Ármann Smári Björnsson voru allir í byrjunarliði Brann í dag. Sá síðastnefndi var tekinn af velli á 67. mínútu en Birkir Már Sævarsson hafði komið inn á sem varamaður skömmu áður.

Haraldur Freyr Guðmundsson sat allan leikinn á varamannabekk Álasundar sem tapaði, 2-1, fyrir HamKam. Þá gerðu Molde og Lilleström 1-1 jafntefli.

Álasund er í neðsta sæti deildarinnar með fimmtán stig en Brann í áttunda sæti með 25 stig.

Þá var einnig leikið í norsku B-deildinni í dag. Sandefjord gerði 1-1 jafntefli við Haugesund á útivelli en Kjartan Henry Finnbogason skoraði mark fyrrnefnda liðsins í upphafi síðari hálfleiks.

Þá vann Bryne 6-1 sigur á botnliði Hödd en Baldur Sigurðsson kom ekki við sögu í leiknum. Allan Borgvardt skoraði tvö marka Bryne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×