Menning

Barokk-popp í Langholti

Dominque Labelle, yndisleg söngkona með einstök tök á söngstíl barokktímans.
Dominque Labelle, yndisleg söngkona með einstök tök á söngstíl barokktímans.

Annað kvöld bregður Sinfóníuhljómsveit Íslands fyrir sig betri fætinum, flytur sig af Melunum upp í Langholt: í Langholtskirkju verður besta hljómsveit landsins með efnisskrá sem helguð er helstu perlum barokksins; sum þessara verka eru öllum kunn: Vatnamúsík Händels, Hljómsveitarsvíta nr. 3 eftir Bach, en í henni er einmitt Aría á G-streng, og hin sívinsæla kanón Pachelbels eru þeirra á meðal. Poppið úr barokkinu.

Hljómsveitarstjóri er Nicholas Kraemer en einsöng syngur Dominique Labelle, sem hefur hlotið frábærar viðtökur um allan heim fyrir óviðjafnanlega söngrödd sína og túlkun á barokktónlist. Hún er fædd í Montréal en vakti fyrst athygli í rómaðri sviðsetningu Peters Sellars á Don Giovanni sem hann setti niður í Spönsku Harlem og fór víða um heim. Þar söng hún Donnu Önnu. Hún hefur hlotið einstaklega lofsamlega dóma fyrir flutning sinn á verkum Händels og Bachs, en Boston Globe sagði um flutning hennar á kantötu nr. 202 eftir þann síðarnefnda: „Það þurfa allir meiri Dominique inn í líf sitt." Nýverið söng hún einsöng í H-moll messu Bachs á Bach-hátíðinni í Leipzig, og Mattheusarpassíuna með Concertgebouw-hljómsveitinni í Amsterdam undir stjórn Ivans Fischer, og hún hlaut Händel-verðlaunin árið 2002 fyrir hljóðritun sína á óperunni Arminio. Þessi kona er því meistarasöngvari sem hefur lagt sig sérstaklega eftir barokk-flutningi.

Á æfingum fyrir tónleikana í vikunni bræddi hún hjörtu þeirra í Sinfóníunni með yndislegri túlkun sinni og kalla menn þar á bæ ekki allt ömmu sína.

Tónleikarnir á föstudaginn hefjast kl. 19.30 og verður húsið opnað klukkustund fyrir tónleikana. Sætaval er frjálst. - pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×