Enski boltinn

Wright-Phillips aftur til Man City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Shaun-Wright Phillips í leik með Chelsea.
Shaun-Wright Phillips í leik með Chelsea. Nordic Photos / Getty Images

Manchester City hefur gengið frá kaupum á Shaun Wright-Phillips frá Chelsea en hann skrifaði undir fjögurra ára samning í dag.

Phillips fór frá City til Chelsea í júlí árið 2005 en átti lengst af erfitt uppdráttar í Lundúnum og átti sjaldan fast sæti í byrjunarliðinu. Hann kom við sögu í 43 deildarleikjum með Chelsea og skoraði í þeim fjögur mörk. Á þeim tíma datt hann einnig úr enska landsliðinu.

„Ég er mjög ánægður með að vera kominn aftur til City og ég get ekki beðið eftir því að byrja aftur," sagði Wright-Phillips við heimasíðu City.

„Þetta er gríðarlega góður fengur fyrir okkur," sagði Mark Hughes, stjóri City. „Ég er viss um að stuðningsmenn félagsins eru jafn ánægðir með þetta og við en ég hef lengi dáðst að Shaun og hef ég reynt að fá hann hingað síðan ég kom til félagsins."

Wright-Phillips lék 181 leik með City á sínum tíma og skoraði í þeim 31 mark.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×