Innlent

Látinn borga fyrir bólusetningu sem aldrei var framkvæmd

Maður sem fór á læknamiðstöðina við Smáratorg í dag, er ósáttur við þá meðferð sem hann fékk þar. Hann kveðst hafa lesið í fjölmiðlum að ekki væri of seint að láta bólusetja sig þótt fyrstu tilfellin séu komin upp.

Þegar hann kom á læknamiðstöðina greiddi hann 2.200 krónur. Eftir klukkustundar bið hitti hann hann lækni sem sagði að allt bóluefni væri á þrotum. Við svo búið kvaddi hann en kom við í móttökunni og óskaði eftir endurgreiðslu, þar sem engin þjónusta hefði verið veitt.

Stúlkan í móttökunni sagði að það væru reglur að ekki væri endurgreitt. Aðspurð sagði hún að þær reglur væru ekki til skriflegar. Stúlkan sagði að auk þess vissi hún ekkert hvort hann hefði fengið þjónustu hjá lækninum eða ekki.

Það vildi maðurinn ekki sætta sig við og hringdi stúlkan þá í lækninn, sem einnig sagði að ekki yrði endurgreitt. Maðurinn mótmælti því enn, og sagði stúlkan þá að hún myndi hringja í lögregluna ef hann færi ekki.

Við svo búið yfirgaf hann læknamiðstöðina, harla ósáttur. Hann sagði í samtali við Vísi að í miðstöðinni hefði ekki verið nein tilkynning um að bóluefni væri búið, né heldur að gangslausar heimsóknir væru ekki endurgreiddar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×