Erlent

Danadrottning rekin út í garð

Óli Tynes skrifar
Margrét Þórhildur Danadrottning.
Margrét Þórhildur Danadrottning.

Margrét Þórhildur Danadrottning var rekin út í garð þegar Jóakim prins gekk að eiga Maríu sína að sögn gesta sem voru í brúðkaupinu.

Drottningin er stórreykingamanneskja til margra ára. Hún er að vísu hætt að reykja við opinberar athafnir.

Veislan eftir kirkjuathöfnina var hinsvegar lokuð öðrum en sérstaklega boðnum gestum og drottningin leit á hana sem einkasamkvæmi. Og í einkasamkvæmum sínum má hún auðvitað reykja.

Danska tímaritið Se og Hör hefur eftir gestum að þjónaliðið hafi farið í verkfall þegar reykjarmökkurinn steig upp frá drottningunni og lagðist yfir matsalinn þar sem þeir áttu að ganga um beina.

Gestirnir segja að Jóakim hafi bjargað málinu með því að biðja hennar hátign að fara út í garð til þess að fá sér smók. Og þá var kátt í höllinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×