Íslenski boltinn

Grétar Rafn: Framtíðin björt

Ómar Þorgeirsson skrifar
Grétar Rafn Steinsson.
Grétar Rafn Steinsson.

Grétar Rafn Steinsson, leikmaður Bolton, er spenntur fyrir vináttulandsleikinn gegn Aserbaídsjan sem fram fer á Laugardalsvelli í kvöld.

„Það er mjög fínt að fá leik núna til þess að skerpa aðeins á hlutunum fyrir undankeppnina. Ég held að Aserar séu ekki með jafn hávaxið og jafn líkamlega sterkt lið og við og því verðum við að láta þá finna fyrir okkur strax í byrjun og halda keyrslunni út leikinn. Við þurfum líka að vera óhræddari við að halda boltanum meira innan liðsins og ég tel að við séum með leikmenn sem eru tæknilega nógu góðir til þess að það sé hægt."

„Ég tel okkur nú vera komna með góða blöndu af ungum og tæknilega góðum leikmönnum og svo reyndari leikmönnum sem koma með grimmdina inn í þetta," segir Grétar Rafn.

Grétar telur að framtíðin hjá liðinu sé björt hjá landsliðinu. „Það er mikið af ungum leikmönnum sem eru að koma inn í þetta og eru að fá reynslu bæði með félagsliðum sínum og landsliðinu. Þessir strákar þurfa bara meiri leikreynslu til þess að það komi svona meiri stöðugleiki í leikinn hjá okkur og það kemur allt. Það má því segja að framtíðin sé björt hjá liðinu," segir Grétar Rafn.

Theodór Elmar Bjarnason veit ekki mikið um Aserbaídsjan en telur mikilvægt að ná góðum úrslitum gegn þeim. „Við förum núna út í alla leiki til þess að vinna þá og það á ekki að skipta neinu máli hvort það sé vináttulandsleikur eða ekki. Við náðum ekki að spila okkar leik gegn Wales á dögunum en núna er nýtt tækifæri og við þurfum að taka það til þess að byggja á fyrir undankeppnina," segir Theodór Elmar.

Theodóri Elmari hlakkar sérstaklega til þess að mæta Norðmönnum og Skotum í undankeppni HM. „Riðillinn okkar í undankeppninni er mjög skemmtilegur að mínu mati og klárlega verðugt verkefni framundan. Við mætum Noreg í fyrsta leik og það er óneitanlega skemmtilegt að vera að fara að mæta þar mörgum leikmönnum sem maður spilar reglulega á móti í norsku deildinni. Það verður að sama skapi gaman að kljást við Skota þar sem nokkrir af fyrrum liðsfélögum mínum hjá Celtic verða örugglega í hópnum hjá þeim. Ég býð því sérstaklega eftir þeim leikjum," segir Theodór Elmar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×