Viðskipti innlent

Af dónalegum spurningum

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, brást illa við spurningum Sindra Sindrasonar, fréttamanns Markaðarins, fyrir utan Stjórnarráðið í gærmorgun. Sakaði Geir Sindra um dónaskap þegar hann innti ráðherra eftir aðgerðum í efnahagsmálum. Svona voru samskiptin: Sindri: „Jæja, hvar eru peningarnir sem eiga að komast inn í landið?" Geir: „Á þetta að vera viðtal? Sindri: „Já, ég myndi vilja heyra aðeins um þetta..." Geir: „Þú verður að hafa samband fyrirfram." Sindri: Geir, þjóðin náttúrulega bíður eftir einhverjum aðgerðum frá ríkisstjórninni. Geturðu ekki gefið okkur smá komment?" Geir: „Ég vildi gjarnan gera það, Sindri, ef þú hagaðir þér ekki svona dónalega." Var botninum þá ekki náð?

Óhætt er að segja að hörð viðbrögð forsætisráðherra veki athygli. Í hverju dónaskapur fréttamannsins fólst er heldur ekki augljóst.

Forsætisráðherra verður að una því að fjölmiðlar spyrji þeirra spurninga, sem fólkið í landinu spyr sig þessa dagana. Verðbólgan hækkar, gengið sveiflast, bensín er í hæstu hæðum og fyrirtæki segja upp fólki. Hann sagði sjálfur í þinginu fyrir nokkrum vikum að botninum væri náð á mörkuðum. Óhætt er að segja, að það hafi ekki gengið eftir. Hann hefur einnig sagt að til standi að efla gjaldeyrisforðann með erlendu láni og nú er beðið eftir því. Hve löng sú bið verður, er ekki gott að segja. Kannski væri líka dónalegt að velta því fyrir sér?






Fleiri fréttir

Sjá meira


×