Fótbolti

Real Madrid sótti þrjú stig til Pétursborgar

Elvar Geir Magnússon skrifar
Ruud van Nistelrooy skoraði sigurmarkið.
Ruud van Nistelrooy skoraði sigurmarkið.

Real Madrid vann 2-1 útisigur á Zenit frá Pétursborg í fyrsta leik dagsins í Meistaradeild Evrópu. Leikurinn var opinn og virkilega skemmtilegur áhorfs en öll mörkin þrjú komu í fyrri hálfleik.

Spænska liðið náði forystu eftir aðeins þriggja mínútna leik. Rafael van der Vaart átti þá sendingu fyrir markið og varð varnarmaður Zenit, Hubocan, fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark.

Andrei Arshavin lagði upp jöfnunarmark Zenit á 25. mínútu en það skoraði Danny eftir góða sókn. Aðeins fimm mínútum síðar endurheimti Real Madrid forystuna þegar markahrókurinn Ruud van Nistelrooy skoraði eftir varnarmistök.

Það er með hreinum ólíkindum að ekkert mark kom í seinni hálfleiknum. Zenit var betra liðið í hálfleiknum og sótti oft á tíðum mjög stíft. Meðal annars átti liðið stangarskot. Jöfnunarmarkið kom hinsvegar ekki og Real Madrid fékk öll stigin þrjú.

Real Madrid hefur því sex stig eða fullt hús eftir tvo leiki i H-riðlinum en Zenit hefur tapað báðum sínum leikjum. Zenit lék mjög vel í dag en fékk ekkert út úr leiknum. Klukkan 18:45 hefst leikur BATE og Juventus sem einnig eru í H-riðli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×