Menning

Óttar skrifar um gosið í Eyjum

Óttar sveinsson Fimmtánda Útkallsbók rithöfundarins fjallar um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973.
Óttar sveinsson Fimmtánda Útkallsbók rithöfundarins fjallar um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973.

„Þarna eru margir Eyjamenn sem segja frá upplifun sinni á dramatískan hátt og opna sig með tilfinningar sínar," segir Óttar Sveinsson rithöfundur. Fimmtánda Útkallsbók Óttars er komin í verslanir og að þessu sinni fjallar höfundurinn um eldgosið í Vestmannaeyjum árið 1973. Bókin nefnist Flóttinn frá Heimaey. Óttar ræðir við fjölmarga Eyjamenn um upplifun sína af gosinu en í forgrunni er stór fjölskylda sem tvístraðist þegar fólk var ferjað upp á land.

„Þarna segi ég frá foreldrum sem týna fjórum barna sinna í tvo sólarhringa. Þegar öllum var sagt að fara niður að höfn keyrði fjölskyldufaðirinn fjögur af börnunum þangað og sagði þeim að bíða meðan hann sækti mömmu þeirra og þrjú önnur systkini.

Þegar foreldrarnir komu aftur niður á höfn sáu þau hvorki tangur né tetur af börnunum fjórum og enginn gat fundið þau. Svo urðu þau að yfirgefa Eyjar án þess að vita um afdrif barna sinna þegar síðasti af rúmlega sjötíu bátum sigldi upp á land," segir Óttar. Foreldrarnir og hin börnin þrjú voru flutt í Melaskóla og þar liðu um það bil tveir sólarhringar áður en tvö barnanna skiluðu sér. Hin tvö fundust svo degi síðar. „Þau voru orðin gjörsamlega buguð af ótta," segir Óttar.

Samhliða Útkallsbók Óttars kemur út barnabók sem fjallar líka um gosið í Eyjum. Bókin nefnist Edda týnist í eldgosinu og er eftir Herdísi Egilsdóttur. „Það vill svo skemmtilega til að sú bók er byggð á endurminningum yngstu stelpunnar í fjölskyldunni sem ég skrifa um. Þannig að það er bæði Útkall og afkvæmi fyrir þessi jól," segir Óttar og hlær. - hdm






Fleiri fréttir

Sjá meira


×