Fótbolti

Chelsea hélt hreinu í sjötta leiknum í röð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlo Cudicini stóð í marki Chelsea í gær.
Carlo Cudicini stóð í marki Chelsea í gær. Nordic Photos / Getty Images

Chelsea vann í gær 3-0 sigur á Olympiakos í Meistaradeild Evrópu og var það sjötti leikur liðsins í röð í keppninni þar sem liðið heldur marki sínu hreinu.

Síðasti andstæðingur liðsins til að skora gegn Chelsea í Meistaradeildinni er Valencia sem tapaði 2-1 fyrir Chelsea á heimavelli þann 3. október síðastliðinn.

Chelsea bætti í gær félagsmet með því að halda hreinu í sjötta leiknum í röð en gamla metið var sett árið 2004.

Arsenal á metið en liðið hélt hreinu í tíu leikjum í röð tímabilið 2005-6. Þá hélt AC Milan marki sínu hreinu í sjö leikjum í röð tímabilið 2004-5.

Panathinaikos og Ajax hafa einnig afrekað það að halda hreinu í sex leikjum í röð en það gerðu þau bæði leiktíðina 1995-6.

Tvö önnur met voru slegin í leik Chelsea og Olympiakos í gær. Michael Ballack skoraði eitt marka Chelsea og varð þar með markahæsti Þjóðverjinn í Meistaradeildinni frá upphafi. Áður deildi hann þessum titli með Carsten Jancker sem skoraði þrettán mörk fyrir Bayern München í keppninni á sínum tíma.

Ballack hefur nú skorað fjórtán mörk í Meistaradeildinni, flest með Bayer Leverkusen eða átta talsins. Þrjú komu með Bayern München og þrjú hafa þegar komið með Chelsea.

Þá varð markvörður Olympiakos, Antonis Nikopolidis, leikjahæsti leikmaður Grikkja í Meistaradeildinni frá upphafi er hann lék sinn 53. leik í keppninni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×