Fótbolti

Getur gert mark úr engu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Karim Benzema fagnar marki sínu í fyrri leiknum en hann endaði með jafntefli 1-1.
Karim Benzema fagnar marki sínu í fyrri leiknum en hann endaði með jafntefli 1-1.

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, gerir fátt annað þessa dagana en að hrósa sóknarmanninum Karim Benzema hjá Lyon.

Forráðamenn franska liðsins segja að sá skoski sé að reyna að taka leikmanninn úr jafnvægi en liðin mætast í seinni viðureign sinni í Meistaradeildinni á morgun.

Benzema er tvítugur en hann skoraði mark Lyon í fyrri leiknum. „Benzema leikur einn frammi og skapar mikla ógn. Maður sá það í fyrri leiknum að ef hann fær tækifæri þá grípur hann það og getur gert mark úr engu," sagði Ferguson.

„Benzema er markaskorari liðsins. Hann ásamt aukaspyrnum Juninho eru mesta ógn okkar og við verðum að hafa gætur á þeim."

Ferguson segir að hans bíði erfitt verkefni að velja lið sitt fyrir leikinn enda margir leikmenn Manchester United í hörkuformi um þessar mundir. „Fyrir leikinn gegn Fulham var ég kominn með byrjunarliðið fyrir leikinn gegn Lyon í hugann en skipti um skoðun í hálfleik," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×