Fótbolti

Wenger segir Arsenal fá ósanngjarna meðferð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal. Nordic Photos / Getty Images

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að sínir leikmenn fái ósanngjarna meðferð frá dómurum eftir að liðið gerði markalaust jafntefli gegn Fenerbahce í gær.

Wenger gagnrýndi einnig leikmenn Stoke um helgina og sakaði þá um að vísvitandi reyna að meiða sína leikmenn. Leikurinn í gær var sá þriðji í röð sem Arsenal nær ekki að vinna.

„Hvaða lið er prúðast? Það er Arsenal. Skoðum hvaða lið brýtur sjaldnast af sér - það er Arsenal. En hvaða lið fær flestar áminningar eftir aðeins fjögur eða fimm brot. Það erum við."

Wenger sagði einnig að það væri sýnilegt á úrslitum ensku liðanna í Meistaradeildinni í vikunni að leikjaálagið væri farið að segja til sín.

„Ef við skoðum árangur ensku liðanna í Meistaradeildinni hafði ekkert enskt lið tapað á tímabilinu fyrr en nú," sagði Wenger. Manchester United og Liverpool gerðu jafntefli í sínum leikjum og Chelsea tapaði fyrir Roma á útivelli.

„Og ekkert enskt lið vann sinn leik í þessari viku. Það má kannski útskýra þannig að allir lögðu mikið á sig í deildarleikjunum um helgina og áttu minna inni fyrir Meistaradeildarleikina."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×