Fótbolti

Stefán í viðræðum við Norrköping

Knattspyrnumaðurinn Stefán Þórðarson íhugar að ganga aftur í raðir sænska liðsins Nörrköping. Hann útilokar að leika aftur á Íslandi.

Stefán gekk aftur í raðir Skagamanna fyrir síðasta tímabil eftir þrjú ár hjá sænska liðinu. Að loknu Íslandsmóti í haust tilkynnti Stefán, sem er 33 ára, að hann væri hættur knattspyrnuiðkun.

Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í dag staðfesti Stefán hins vegar að hann hafi undanfarið átt í viðræðum við Nörrköping um að ganga aftur í raðir liðsins sem féll úr sænsku úrvalsdeildinni á dögunum. Stefán er í miklum metum hjá stuðningsmönnum sænska liðsins sem hafa sent honum hundruðir tölvupósta síðan hann yfirgaf félagið.

Þá hefur treyja hans númer 18 verið lögð til hliðar og verður ekki notuð af öðrum leikmanni.

Stefán segist hafa leikið sinn síðasta leik hér á Íslandi. Hann hafi ekkert í íslenska boltann að gera lengur, það geti hvaða maður sem er séð eftir meðferðina sem hann fékk hjá dómurum í sumar, eins og hann segir. Þá sé ástandið hér heima heldur ekki ákjósanlegt.

Stefán segir það skýrast á allra næstu vikum hvort verði af því að hann snúi aftur til Svíþjóðar. Nörrköping leitar nú að nýjum þjálfara og mun ekkert gerast í málum Stefáns fyrr en þjálfaramálin komast á hreint.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×