Erlent

Ný vá vofir yfir í Kína

Kapphlaup við tímann við Tangjiashan vatn.
Kapphlaup við tímann við Tangjiashan vatn. MYND/AP

Yfirvöld í Kína eru nú í kapphlaupi við tímann að opna farveg fyrir losun vatns úr stöðuvatni sem varð til í jarðskjálftanum í Sisjúan fyrir tæpum þremur vikum. Hætta er á að vatnið flæði yfir borgina fyrir neðan.

Eftir skjálftann, sem olli dauða fleiri en 80 þúsunda manna, er nú annað áfall yfirvofandi. Tangjiashan vatn varð til þegar skriðuföll tepptu farveg Jianjiang árinnar. Unnið er allan sólarhringinn við að mynda farveg fyrir vatnið í því skyni að minnka þrýstinginn á stífluna.

Þegar er búið að flytja tvö hundruð þúsund manns af svæðinu fyrir neðan - en ef stíflan brestur skyndilega þá eru ein komma þrjár millónir manna í hættu. Forseti Kína heimsótti nýlega búðir þar sem fólk býr sem missti heimili sín í skjálftanum.

Á svæðinu fyrir neðan Tangjiashan vatn bíður fólk þess sem verða vill. Ef stíflan brestur þá hafa íbúar Mianyang borgar fimm til sex klukkustundir til að koma sér burt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×