Fótbolti

Berbatov: Ekki mitt hlutverk að dæma rangstöðu

Elvar Geir Magnússon skrifar
Markaskorararnir Berbatov og Rooney.
Markaskorararnir Berbatov og Rooney.
Dimitar Berbatov var í skýjunum með umdeildu mörkin sín tvö í 3-0 sigrinum á Celtic. Bæði skoraði hann af stuttu færi en í endursýningum sást að hann var rangstæður í bæði skiptin.

„Það er ekki mitt að dæma mig rangstæðan. Mitt hlutverk er að skora en dómararnir eiga að taka ákvörðun um hvort það sé gilt. Þeir töldu bæði mörkin í kvöld lögleg," sagði Berbatov.

„Það var frábært að ná að skora og við náðum góðum sigri," sagði Berbatov sem var mjög ánægður með sína frammistöðu. Sir Alex Ferguson, stjóri United, gaf sér tíma til að hrósa sóknarmanninum búlgarska.

„Hann gefur okkur frábæra möguleika á síðasta þriðjungi vallarins. Vonandi mun samstarf hans við Wayne Rooney og Carlos Tevez þróast enn meira á næstunni," sagði Ferguson. Berbatov var tekinn af velli á 60. mínútu vegna smávægilegra meiðsla.

Wayne Rooney skoraði þriðja mark United í kvöld en hann hefur nú skorað í sjö leikjum í röð ef landsleikir eru teknir með.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×