Menning

Fyrirlestrar og afmæli kartöflunnar

Kartöflur hafa fætt og kætt Íslendinga í 250 ár.
Kartöflur hafa fætt og kætt Íslendinga í 250 ár.

Akureyrarakademían, Félag sjálfstætt starfandi fræðimanna á Norðurlandi, hleypir í vikunni vetrarfyrirlestraröð sinni af stað á ný. Fyrirlestraröðinni var vel tekið síðasta vetur og sóttu erindin á þriðja hundrað manns, bæði félagar í Akademíunni og aðrir áhugasamir. Með fyrirlestrunum er ætlunin að bjóða upp á fjölbreytt efni af sem flestum sviðum vísindanna og búa þannig til vettvang fyrir fræðimenn að miðla efni sínu. Verða fyrirlestrarnir í vetur tíu talsins og verða haldnir á fimmtudögum kl. 17 í húsakynnum Akademíunnar í Gamla húsmæðraskólanum, Þórunnarstræti 99. Fyrsta fyrirlestur vetrarins heldur Tryggvi Hallgrímsson á morgun. Hann mun í framsögu sinni fjalla um áhrif snjóflóðavarna á samfélög á Íslandi.

Akademían lætur þó ekki þar við sitja heldur stendur einnig fyrir allsherjar afmælismálþingi til heiðurs kartöflum um næstu helgi. Tilefnið er ekki eingöngu alþjóðlegt ár kartöflunnar í ár, heldur einnig 250 ára ræktunarafmæli kartaflna á Íslandi og það að 200 ár eru liðin síðan ræktun þeirra hófst í Búðargilinu á Akureyri.

Málþingið er hugsað sem væn blanda af fræðum, listum, ræktun og matargerð. Þátt tekur garðyrkjufólk sem og ræktendur, myndlistarfólk, sagnfræðingar, bændur, dansari og tónlistarfólk. Matargerðarsnillingarnir á veitingastaðnum Friðriki V töfra fram kartöflurétti og hljómsveit leikur fyrir dansi um kvöldið.

Málþingið, sem fer fram í húsnæði Akademíunnar, er öllum opið og er aðgangur ókeypis. Þingið hefst kl. 13 næstkomandi laugardag og stendur fram eftir kvöldi.- vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×