Enski boltinn

Ferdinand á leið í læknisskoðun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anton Ferdinand í leik með West Ham á undirbúningstímabilinu í sumar.
Anton Ferdinand í leik með West Ham á undirbúningstímabilinu í sumar. Nordic Photos / Getty Images

Anton Ferdinand er farinn til Sunderland þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun í dag. Roy Keane, stjóri Sunderland, vonast til að ganga frá félagaskiptunum síðar í dag.

Stjórn West Ham, sem er í eigu Björgólfs Guðmundssonar, ákvað að ganga að tilboði Sunderland upp á átta milljónir punda í Ferdinand sem er 23 ára gamall miðvörður.

„Ég væri mjög ánægður með að fá hann og einn leikmann til viðbótar," sagði Keane. „Þá gætum við farið að einbeita okkur að tímabilinu framundan."

Ferdinand á þó við meiðsli að stríða og sagði Keane að þó svo að gengið yrði frá samningum í dag gætu verið nokkrar vikur í hans fyrsta leik.

„Það væri ekki sanngjarnt að henda honum strax í liðið. Það er landsleikjafrí framundan sem gæfi honum tækifæri til að æfa með okkur í tvær vikur."

Enginn hefur verið duglegri á leikmannamarkaðnum í sumar en Roy Keane af stjórum ensku úrvalsdeildarliðanna. Félagið hefur eytt um sautján milljónum punda í þá Djibril Cissé, El-Hadji Diouf, David Healy, Pascal Chimbonda, Teemu Tainio, Steed Malbranque, David Meyler og Nick Colgan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×