Fótbolti

Ferguson hlakkar til að mæta Mourinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jose Mourinho og Alex Ferguson þekkjast vel úr enska boltanum.
Jose Mourinho og Alex Ferguson þekkjast vel úr enska boltanum. Nordic Photos / AFP

Það verður sannkallaður stórslagur í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu þegar núverandi meistarar, Manchester United, mætir Inter, toppliði ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Þarna mætast á ný þeir Alex Ferguson, stjóri United, og Jose Mourinho, stjóri Inter en hann hefur margsinnis stýrt Chelsea gegn United á sínum ferli auk þess sem hann var stjóri Porto þegar liðið sló United úr Meistaradeildinni árið 2004.

„Það verður afar athyglisvert að mæta Jose á nýjan leik," sagði Ferguson í samtali við sjónvarpsstöð Manchester United.

„Hann sló okkur úr leik þegar hann var með Porto þannig að ég vonast til að við verðum með þær lukkudísir sem hann var með á sínu bandi þá."

Mourinho var rekinn frá Chelsea fyrir fimmtán mánuðum síðan og verður þetta í fyrsta sinn sem hann stýrir liði á Bretlandseyjunum síðan þá. En fyrst mætast liðin á San Siro og segir Ferguson að úrslit þess leiks muni skipta sköpum.

„Vonandi náum við góðum úrslitum í fyrri leiknum sem gefur okkur góða stöðu fyrir leikinn á Old Trafford. San Siro er frábær leikvangur en við höfum tvisvar tapað fyrir AC Milan í undanúrslitunum þar. Við viljum gjarnan snúa því gengi við."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×