Nokkuð virðist til í því að sagan snúi alltaf aftur. Árið 1921 sigldi þjóðarskútan inn í þvílíkan brimskafl í kjölfar fyrri heimsstyrjaldar að gríðarlegur hallarekstur blasti við í ríkisbúskapnum og þrot fyrir bönkunum, Landsbanka og þáverandi Íslandsbanka. Brugðið var á ýmis ráð, svo sem innflutningshöft á óþarfa glysvarning.
Í ofanálag var slegið á risalán upp á hálfa milljón sterlingspunda hjá Hambros-banka í Lundúnum, viðskiptabanka Íslendinga á erlendri grund á þeim tíma. Bankinn tók veð í tollum landsins á móti. Í sögubókum kallast þetta enska lánið þótt mörg íslensk fyrirtæki hafi átt í viðskiptum við bankann.
Nafn Hambros-banki kom upp stöku sinnum næstu áratugi eftir þetta. Eftirminnilegasta skiptið var þegar í ljós kom að Sambandið sáluga skuldaði bankanum 1,3 milljarða króna árið 1990 en virtist ekki hafa burði til að standa við skuldbindinguna. Eins og Morgunblaðið segir söguna var það mat Landsbankans að lánstraust Íslendinga erlendis kynni að verða í uppnámi myndi Hambros og aðrir viðskiptabankans segja upp viðskiptum sínum við Sambandið. Landsbankinn tók Sambandið yfir í kjölfarið en Hambros er nú deild innan franska bankans Société Générale. Söguna um nýleg afdrif Íslandsbanka (sem að nafninu einu tengist Glitni) og Landsbankans ættu flestir að þekkja.