Dauði Díönu prinsessu og Dodi Fayed ástmanns hennar var manndráp af gáleysi. Þetta er niðustaða kviðdóms í réttarrannsókninni á dauða prinsessunnar sem staðið hefur yfir í sex mánuði.
Niðurstaða kviðdómsins var manndráp af gáleysi vegna stórkostlegrar vanrækslu í akstri paparazzi ljósmyndara og einkabílstjórans Henry Paul. Kviðdómurinn tilnefndi sem áhrifaþátt að Henry Paul hefði verið undir áhrifum áfengis þegar slysið varð í Alma göngunum í París í ágúst árið 1997.
Hann komst einnig að þeirri niðurstöðu að ljósmyndararnir og bílstjórar þeirra hefðu keppt við Mercedes bifreiðina á vítaverðan hátt og keyrt svo nálægt henni að Paul hafði ekkert svigrúm.
„Úrskurður kviðdómsins er sá alvarlegasti sem hann hefði getað komist að," sagði Sarah Hughes fréttaritari Sky við Hæstarétt Lundúna í dag. Dánardómstjórinn hefði varað við að niðurstaðan yrði þessi þar sem manndráp af gáleysi með stórkostlegri vanrækslu jafngilti morði.
Scott Baker dánardómsstjóri útilokaði möguleikann á því að kviðdómurinn gæti komist að þeirri niðurstöðu að parið hefði verið myrt vegna skorts á sönnunargögnum. En hann gaf þeim möguleika á opnum úrskurði.
Úrskurðurinn hafnar samsæriskenningu Mohamed al Fayed, faðir Dodi, sem hefur haldið því fram að parið hafi verið myrt af Philip prins og bresku leyniþjónustunni.
Það tók kviðdóminn 23 klukkutíma að íhuga málið í heild sinni eftir sex mánaða rannsókn og komast að niðurstöðu. Dómarinn þakkaði kviðdómnum fyrir og sagði að úrskurðurinn væri sögulegur viðburður.