Menning

Ina verðlaunuð

Sýningin Ambra hlaut nýverið Norsku gagnrýnenda-verðlaunin.
Sýningin Ambra hlaut nýverið Norsku gagnrýnenda-verðlaunin.

Norski danshöfundurinn Ina Christel Johannessen hlaut í síðustu viku Norsku gagnrýnendaverðlaunin fyrir verk sitt Ömbru sem hún samdi fyrir Íslenska dansflokkinn og dansflokkinn Carte Blanche í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík og Listahátíðina í Bergen. Verkið var sýnt hér á Íslandi í byrjun sumars við góðar undirtektir gagnrýnenda og áhorfenda, og hefur síðan verið sýnt bæði í Bergen og í Ósló.

Ina Christel Johannessen er einn af áhugaverðustu danshöfundum Evrópu um þessar mundir. Hún samdi Ömbru í samstarfi við íslensku tónlistarkonurnar Kiru Kiru og Hildi Ingveldardóttur Guðnadóttur ásamt Þjóðverjanum Dirk Desselhaus. Um 20 dansarar taka þátt í sýningunni ásamt myndarlegri beinagrind úr stóreflis hval.

Í umsögn sinni um Ömbru sagði dómnefnd Norsku gagnrýnendaverðlaunanna að verkið væri stórsýning sem markaði sannkölluð tímamót fyrir listgreinarnar dans, tónlist og sjónræna sköpun. Dómnefndin sagði enn fremur að hreyfingar dansaranna ljæðu verkinu sinfónískan blæ og að það myndi eflaust eiga sér langan líftíma. Ekki amaleg umsögn það.

Í fréttatilkynningu sem Íslenski dansflokkurinn sendi frá sér í tilefni verðlaunanna kemur fram ánægja með vel heppnað samstarf danshöfundar og dansflokka. „Ina og hennar samstarfsfólk sem og dansarar flokkanna beggja eru vel að þessum verðlaunum komin og erum við stolt af þessu vel heppnaða norræna samstarfi," segir Katrín Hall, listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×