Fótbolti

Betra en brúðkaupsnóttin

Solskjær fagnar markinu sögulega árið 1999
Solskjær fagnar markinu sögulega árið 1999 NordcPhotos/GettyImages

Ole Gunnar Solskjær, fyrrum leikmaður Manchester United, segist ekki hafa gert sér grein fyrir því fyrr en löngu síðar hve mikla þýðingu sigurmark hans í Meistaradeildinni árið 1999 hafði fyrir stuðningsmenn liðsins.

Solskjær tryggði þá Manchester United ævintýralegan sigur á Bayern Munchen með marki í uppbótartíma og stimplaði sig rækilega inn í sögubækur félagsins.

"Flestir sem ég hitti úti á götu minnast á úrslitaleikinn í Barcelona og þakka mér fyrir bestu minningu lífs síns. "Takk fyrir besta kvöld lífs míns - en ekki segja konunni minni frá því," segja þeir. Þetta er alltaf besta minningin hjá stuðningsmönnunum - jafnvel eftirminnilegra kvöld en sjálf brúðkaupsnóttin. Á endanum fer maður að trúa þessu, þetta var mjög, mjög eftirminnilegt kvöld fyrir fjölda fólks," sagði Solskjær í samtali við Sun.

"Ég gerði mér ekki grein fyrir þessu strax. Ég hélt ég hefði bara skorað sigurmark í leik, en eftir öll þessi ár geri ég mér grein fyrir því hve mikla þýðingu þetta hafði í sögu United," sagði Norðmaðurinn, sem verður meðal áhorfenda í Moskvu á miðvikudagskvöldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×