Fótbolti

Dida keyptur út hjá Milan?

NordcPhotos/GettyImages

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því í dag að til greina komi að brasilíski markvörðurinn Dida verði keyptur út úr síðustu tveimur árunum af samningi sínum við AC Milan.

Dida átti skelfilega leiktíð með Milan í vetur. Hann gerði nokkur stór mistök í mikilvægum leikjum og komst í fréttirnar fyrir glórulausa leikræna tilburði sína gegn Glasgow Celtic í Meistaradeildinni, en þar fékk hann sekt og bann fyrir að villa um fyrir dómurum.

Markvörðurinn hefur ekki spilað leik með Milan síðan í janúar þegar hann missti sæti sitt í hendur Zeljko Kalac sem hefur staðið í marki liðsins síðan.

Sagt er að Dida eigi um 16 milljónir evra inni hjá Milan fyrir samningstímann, en hann fengi væntanlega ekki alla þá upphæð í vasann ef hann gengi að því að slíta samningnum.

Hann hefur þegar verið orðaður við gamla liðið sitt Cruzeiro í Brasilíu þar sem hann spilaði á árunum 1994-98 áður en hann gekk í raðir Milan. Dida er 34 ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×