Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur komið í veg fyrir að austurríska leiðin verði tekin upp hér landi, að mati Kolbrúnar Halldórsdóttur, þingmanns Vinstri grænna. Úrræðið felur í sér að ofbeldismaður er fjarlægður af heimili sínu. Frá árinu 2003 hefur Kolbrún lagt árlega til á Alþingi að leiðin verði tekið upp hér á landi.
Undanfarna daga hefur verið um rætt um austurrísku leiðina sem úrræði til að vinna gegn heimilisofbeldi. Tilefnið er að fyrir helgi hafnaði Hæstiréttur beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem fór fram á að sex mánaða nálgunarbann manns yrði framlengt um þrjá mánuði. Maðurinn er grunaður um að hafa beitt sambýliskonu sína grófu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi,
Kolbrún segir að fleiri lönd hafi fylgt Austurríki í kjölfar þess að þar voru sett lög árið 1997 sem heimili lögreglu að fjarlægja ofbeldismann af heimili sínu og banna heimsóknir hans á heimilið í tíu daga til þrjá mánuði. Fjölmörg Evrópulönd hafa tekið upp þetta ákvæði, meðal annars öll hin norrænu ríkin. ,,Fram að þessu stóðu Austurríkismenn frammi fyrir stöðugri fjölgun kvennaathvarfa sem gerðu konur og börn í rauninni að flóttafólki í eigin landi."
,,Það kann að vera að íslensk stjórnvöld setji sig upp á móti þessari leið því þetta kann að kosta einhverja fjármuni. Aftur á móti mun úrræðið skila okkur um leið hamingjusamara samfélagi. Í þeim tilfellum vil ég ekki að við horfum í fjármunina," segir Kolbrún.
Kolbrún kveðst eiga von á því að málið fái stuðning í öðrum flokkum. ,,Ég vona að Björn Bjarnason verði ekki sá sem standi í vegi fyrir þessu en ef hann ætlar að gera það vona ég að fólk í hans flokki hafi vit fyrir honum. Hann hefur ekki lýst sig fylgjandi þessari leið og hefur hingað til staðið í vegi fyrir málinu."