Real Madrid tapaði í gær 3-2 á útivelli fyrir liði Real Union í Konungsbikarnum. Union leikur í þriðju deildinni á Spáni.
Heimamenn komust yfir eftir aðeins tvær mínútur en Gonzalo Higuain jafnaði úr skyndisókn skömmu síðar. Leikurinn var stöðvaður í góða stund eftir að Ruben de la Red hné niður og var fluttur á spítala.
Juan Dominguez skoraði sitt annað mark fyrir Union á 20 mínútur og staðan var 2-1 í hálfleik. Javier Saviola jafnaði fyrir Real Madrid en það var svo Goikoetxea sem skoraði sigurmark Baskaliðsins þegar 63 mínútur voru liðnar af leiknum.
Það verður erfitt verkefni sem bíður Real Union á Bernabeu í síðari leiknum, en Real Madrid hefur unnið keppnina 17 sinnum.
Þetta voru ekki fyrstu óvæntu úrslitin í keppninni því Villarreal fékk 5-0 skell fyrir þriðjudeildarliðinu Poli Ejido á miðvikudaginn og þá tapaði Sevilla 1-0 fyrir Ponferradina úr sömu deild. Síðari leikirnir fara fram 12. nóvember.