Íslenski boltinn

KR hafði betur gegn Fylki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Björgólfur Takefusa skoraði síðara mark KR-inga í kvöld.
Björgólfur Takefusa skoraði síðara mark KR-inga í kvöld.

KR-ingar unnu 2-0 sigur á Fylki í fyrsta leik átjándu umferðar í Landsbankadeild karla í kvöld. Leikurinn fór fram á Fylkisvelli.

KR-ingar byrjuðu betur í kvöld en fljótlega unnu Fylkismenn sig inn í leikinn. Þeir vildu fá vítaspyrnu dæmda sem ekkert varð úr. KR-ingar sprettu í skyndisókn og Guðjón Baldvinsson komst einn gegn Fjalari Þorgeirssyni, markverði Fylkismanna, og skoraði af öryggi.

Nokkru síðar áttu Jordao Diogo og Bjarni Guðjónsson gott þríhyrningsspil á vinstri kantinum sem lauk með því að Diogo gaf fyrir þar sem Björgólfur Takefusa var mættur og skoraði af stuttu færi.

Fylkismenn héldu þó áfram á sækja og fljótlega í upphafi síðari hálfleiks var Guðmundi Reyni Gunnarssyni, bakverði KR-inga, vikið af velli fyrir brot.

Þrátt fyrir það datt allur botn úr leik Fylkismanna við það og áttu KR-ingar ekki í miklum vandræðum með að verja forystuna.

Undir lok leiksins fékk svo fyrirliði Fylkismanna, Ólafur Ingi Stígsson, að líta rauða spjaldið fyrir að ýta við KR-ingi.

KR-ingar eru nú í fjórða sæti deildarinnar með 29 stig en Fylkismenn eru sem fyrr í tíunda sæti deildarinnar með sextán stig. HK-ingar geta með sigri á Þrótti á sunnudaginn komist í fimmtán stig.

Fylgst var með leiknum á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa nánar um gang leiksins þar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×