Enski boltinn

Ole Gunnar er öðrum innblástur

AFP

Sir Alex Ferguson fór fögrum orðum um Ole Gunnar Solskjær í dag, daginn fyrir sérstakan heiðursleik til handa Norðmanninum markheppna.

Manchester United mætir á morgun spænska liðinu Espanyol og þar mun Solskjær væntanlega koma við sögu í um 20 mínútur þar sem honum gefst tækifæri til að kveðja stuðningsmenn United.

Hinn 35 ára gamli Solskjær er hetja í augum stuðningsmanna United og hans verður alltaf minnst sem mannsins sem skoraði sigurmarkið í frábærum úrslitaleik United og Bayern árið 1999 - árið sem liðið vann þrennuna.

"Ole er innblástur fyrir knattspyrnumenn sem vilja eiga langan og gifturíkan feril. Hann hefur helgað sig starfi sínu og það er sjaldgæft að menn spili í meira en tíu ár með sama félaginu í nútímaknattspyrnu. Þegar stuðningsmennirnir hylla Ole í þessum leik, verður það ekki eingöngu til að þakka honum fyrir markið í Barcelona, heldur fyrir áralanga þjónustu hans og hollustu," sagði Ferguson.

"Hann kom til okkar þegar hann var 23 ára gamall og þá hélt ég að hann væri 15 ára. Hann fékk að reyna sig með varaliðinu og eftir tvo leiki kom þjálfari varaliðsins til mín og sagði mér að þessi drengur yrði að fá tækifæri með aðalliðinu. Eftir það var aldrei aftur snúið og hann var í hópnum allar götur eftir það," sagði Ferguson og minntist líka markanna 11 sem hann skoraði á sínu síðasta tímabili, en þau töldu rækilega þegar liðið varð enskur meistari á ný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×