Fótbolti

Veigar Páll vill fara til Þýskalands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll Gunnarsson í leik með Stabæk.
Veigar Páll Gunnarsson í leik með Stabæk. Mynd/Scanpix

Veigar Páll Gunnarsson, leikmaður Stabæk í Noregi, segist vilja halda á önnur mið þegar núverandi tímabili lýkur í norsku úrvalsdeildinni.

„Ég vona að þetta verði mitt síðasta tímabil með Stabæk," sagði Veigar Páll í samtali við norska fjölmiðla. „Takmarkið er að spila í útlöndum á næsta ári."

„Ég hugsa mest til Þýskalands. Ég hef heyrt mikið gott um þýsk félagslið og þau kunna vel að hugsa um mann og fjölskylduna utan vallarins. Þýska knattspyrnan er líka meðal þeirra sterkustu í Evrópu."

Hann segir að þetta getið komið bæði honum og Stabæk vel. „Ef ég stend mig vel og verð seldur fær félagið einhverja summu fyrir mig og ég fæ að reyna mig annars staðar."

Veigar Páll skrifaði undir nýjan samning við Stabæk árið 2006 er hann var orðaður við lið víða um Evrópu.

„Það komu fjögur lið úr ensku úrvalsdeildinni og sáu mig spila og einhver frá Ítalíu. En ég var stressaður og stóð mig illa."

En Jan Jönsson telur að honum gæti gengið vel í Þýskalandi. „Ég vil gjarnan að mínir leikmenn fái tækifæri í útlöndum. Hann var góður árið 2005, betri árið 2006 og mjög góður í fyrra."

Veigar hefur myndað afar sterkt sóknarpar með Svíanum Daniel Nannskog hjá Stabæk og sá síðarnefndi er lítið hrifinn af því að Veigar fari til annars félags.

„Hann mætti alveg bíða þangað til að ég klára minn feril. Þá má hann prófa eitthvað nýtt," sagði hann í léttum dúr en undirstrikaði að hann hefur fullan skilning á afstöðu Veigars.

„Ég myndi gjarnan fá Daniel með mér hvert sem ég færi," svaraði Veigar um hæl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×