Íslenski boltinn

Hermann: Ætlum að reyna að spila mjög illa

Elvar Geir Magnússon skrifar
Hermann Hreiðarsson ræðir við Gunnar Gylfason á Hilton-hótelinu í dag.
Hermann Hreiðarsson ræðir við Gunnar Gylfason á Hilton-hótelinu í dag. Mynd/Elvis

„Við höfum oft verið að spila nokkuð vel í þessum undirbúningsleikjum en síðan ekki byrjað keppnina sérstaklega vel. Við ætlum því að reyna að spila mjög illa á morgun og byrja síðan keppnina vel," sagði Hermann Hreiðarsson kíminn í samtali við Vísi í dag.

Ísland mætir Aserbaídsjan í vináttulandsleik á morgun en þetta er síðasti leikur liðsins fyrir undankeppni HM sem hefst með leik gegn Noregi þann 6. september.

„Nei nei þetta er góður leikur. Allir eru mættir og við fáum þennan stutta tíma til að slípa okkur aðeins saman. Það eru kynslóðaskipti í þessu og gaman að sjá að mjög teknískir og skemmtilegir fótboltamenn eru að koma inn," sagði Hermann.

„Ef við ætlum okkur að gera einhverja hluti í þessum riðli þá þarf liðið að geta haldið bolta og það hefur verið stígandi í því í síðustu leikjum. Við erum með skemmtilegan og sterkan hóp sem ætti að geta gert usla. Holland er yfirburðarlið í riðlinum. Noregur og Skotland hafa síðan fínan mannskap."

Hermann telur að Aserbaídsjan spili ekki ósvipaðan bolta og Makedónía sem er einnig með Íslandi í riðli í undankeppninni.

Enska úrvalsdeildin hófst um síðustu helgi þar sem Hermann og félagar í Portsmouth steinlágu fyrir Chelsea. „Eftir að hafa tapað illa fyrir Chelsea er alveg kærkomið að koma heim, brjóta þetta aðeins upp og fá þetta verkefni. Sjá hvar við stöndum og hvar mannskapurinn er," sagði Hermann.

Tveir nýliðar eru í íslenska hópnum, Jóhann Berg Guðmundsson hjá Breiðabliki og Hólmar Örn Rúnarsson hjá Keflavík. „Það verða allir nýliðar að ganga í gegnum sitt lítið af hverju. Það er ekki alveg búið að ákveða hvað gera skal við þá en þeir fá allavega að finna fyrir því," sagði Hermann.


Tengdar fréttir

Gunnar Heiðar: Sáttur við nýju peyjana

Íslenska landsliðið mætir Aserbaídsjan í vináttulandsleik á Laugardalsvelli á morgun. Leikurinn er lokaundirbúningur fyrir leik gegn Noregi í undankeppni HM sem verður þann 6. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×