Enski boltinn

Heiðar með Bolton á morgun

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heiðar Helguson í leik með Bolton.
Heiðar Helguson í leik með Bolton. Nordic Photos / Getty Images

Heiðar Helguson segist ekki vita til þess að hann sé á förum frá Bolton. Hann verður í byrjunarliðinu er Bolton mætir Northampton í ensku deildarbikarkeppninni á morgun.

Heiðar var nú síðast orðaður við Norwich en hann hefur verið orðaður við fleiri lið í sumar.

„Ég veit ekki hvað það hafa verið mörg lið sem ég átti að vera á leiðinni til," sagði Heiðar í samtali við Vísi. „En ég hef ekki heyrt í neinum og er ekki að fara neitt. Ég tel að ég eigi eftir að fá mína leiki hér og þangað til að mér verði sagt annað verð ég áfram hjá Bolton."

„Bolton er ekki með nema tvo framherja fyrir utan mig og það munu koma upp meiðsli og annað slíkt," bætti hann við.

Heiðar hefur átt lengi við meiðsli að stríða en hann segist allur vera að koma til. „Þetta er allt á réttri leið. Ég er að spila á morgun í bikarnum og það kemur meira í ljós eftir þann leik - hvort ég endist mikið í honum en þetta verður minn fyrsti leikur í langan tíma."

Heiðar sagði að hann hefði þegar fengið að vita að hann verði í byrjunarliði Bolton á morgun.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×