Íslenski boltinn

Góður sigur Fram á Fjölni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ívar Björnsson skoraði tvö marka Fram gegn Fjölni í kvöld.
Ívar Björnsson skoraði tvö marka Fram gegn Fjölni í kvöld.

Fram vann í kvöld 3-1 sigur á Fjölni í Landsbankadeild karla í kvöld. Ívar Björnsson skoraði tvö marka Fram.

Paul McShane var einnig á skotskónum fyrir Fram í kvöld en Ásgeir Aron Ásgeirsson skoraði mark Fjölnismanna.

Leikurinn fór afar rólega af stað en um miðbik hálfleiksins tóku Framarar völdin og komust svo verðskuldað yfir á 37. mínútu með marki Ívars eftir góðan undirbúning Joe Tillen.

Tillen fékk svo gott tækifæri til að koma Fram í 2-0 undir lok fyrri hálfleiksins en Þórður Ingason varði vel frá honum.

Fjölnismenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og náðu að jafna metin á 56. mínútu. Ásgeir skallaði þá hornspyrnu Tómasar Leifssonar í netið.

En aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Fram öðru sinni en Paul McShane var þar að verki með góðu langskoti.

Á 64. mínútu kláraði svo Ívar leikinn með því að skora með skoti utan vítateigs eftir að hann slapp inn fyrir vörn Fjölnis eftir stungusendingu Heiðars Geirs Júlíussonar.

Eftir það voru Framarar nær því að bæta við ef eitthvað var en innbyrtu að lokum öruggan sigur.

Fram endurheimti þar með fjórða sætið í deildinni sem KR-ingar komust í um stundarsakir í kvöld eftir sigur á Fylkismönnum. Fram er með 31 stig, einu stigi á eftir Val sem á leik til góða.

Fjölnir á enn eftir að vinna leik í síðari umferð mótsins og er með 22 stig í áttunda sæti deildarinnar.

Fylgst var með leiknum á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa nánar um gang leiksins þar.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×