Norski rithöfundurinn Ingebrigt Steen Jensen á von á því að íslenski hlutabréfamarkaðurinn muni rjúka upp eftir að þeir Veigar Páll Gunnarsson og Pálmi Rafn Pálmason tryggðu Stabæk norska meistaratitilinn.
Stabæk vann í gær 2-1 sigur Brann þar sem Pálmi Rafn skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma. Fyrir vikið er Stabæk svo gott sem orðið meistari.
Jensen er þekktur rithöfundur og knattspyrnuáhugamaður í Noregi og hefur starfað í kringum Stabæk í áraraðir.
Hann sagði í viðtali við norska fjölmiðla í gærkvöldi að honum þætti það viðeigandi að tveir Íslendingar ættu svo ríkan þátt í sigri Stabæk, sérstaklega í ljósi erfiðra efnahagsstöðu Íslands sem hefur verið í heimsfréttunum undanfarnar vikur.
„Mér fannst það ótrúlega flott að tveir Íslendingar myndu hafa úrslitaáhrif í titilslagnum í norsku úrvalsdeildinni eftir erfiðleikana á Íslandi og fall bankanna. Markaðurinn mun rjúka upp á morgun um 50 prósent," sagði Jensen.