Innlent

Út með Hauk - Inn með Geir

holmfridur@frettabladid.is skrifar
„Út með Hauk, inn með Geir" hrópuðu mótmælendur frammi fyrir lögreglustöðinni í Reykjavík hástöfum í gær. Þangað safnaðist stór hópur reiðra mótmælenda strax í kjölfar mótmælanna á Austurvelli í gær.

Móðir Hauks, Eva Hauksdóttir, talaði frammi fyrir hópnum og var mikið niðri fyrir. Í samtali við blaðamann Fréttablaðsins lýsti hún sögu sonar síns sem hún segir friðsaman aktivista, sem ekki eigi heima í fagnelsi. „Hann hefur staðið í ýmsum mótmælum, meðal annars fyrir umhverfisvernd og gegn stóriðjustefnunni. Hann tilheyrir mörgum grasrótarhreyfingum. En hann hefur alltaf mótmælt friðsamlega og er aldrei með ofbeldi.

Eva var ánægð með stuðninginn sem mótmælendur veittu syni hennar. „Fólk er að verða reitt sýnist mér," sagði hún. „Mér líður illa yfir hvernig lýðræðinu í okkar landi er fyrir komið. Það er hræðilegt að rödd alþýðunnar skuli vera barin niður. En mér finnst frábært að sjá þau viðbrögð sem þetta vekur. það er greinielgt að fólk er búið að fá nóg af þessu rugli."

Haukur var látinn laus um sex leytið. Þá var móðir hans á slysadeild ásamt öðrum sem fengu á sig piparúða lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×