Enski boltinn

Aftur vann United í vítaspyrnukeppni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez grípur um háls Hermanns.
Carlos Tevez grípur um háls Hermanns. Nordic Photos / Getty Images

Annað árið í röð vann Manchester United sigur í árlegum leik um Samfélagsskjöldinn með því að leggja andstæðing sinn af velli í vítaspyrnukeppni.

Í fyrra vann United sigur á Chelsea en í ár voru það bikarmeistarar Portsmouth. Staðan var markalaus eftir venjulegan leiktíma í heldur bragðdaufum leik.

Portsmouth tók fjórar spyrnur. Tvær hittu ekki markið, eina varði Edwin van der Sar og aðeins ein var nýtt. United skoraði úr öllum sínum þremur spyrnum.

Carlos Tevez, Ryan Giggs og Michael Carrick skoruðu fyrir United sem var með yfirhöndina í leiknum en náði þó ekki að færa sér það í nyt.

Hermann Hreiðarsson var í byrjunarliði Portsmouth en var skipt af velli í síðari hálfleik fyrir Lauren. Skömmu áður en Hermanni fór út af lenti honum saman við Carlos Tevez sem greip hann hálstaki.

Tevez var þó ekki refsað fyrir athæfið. Hann vildi meina að Hermann hefði brotið á sér innan teigs og var ekki sáttur þegar að dómari leiksins dæmdi ekki víti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×