Marel hagnaðist um 6,1 milljón evra, jafnvirði rúmra 602 milljóna íslenskra króna, á síðasta ári. Til samanburðar nam hagnaðurinn 200 þúsund evrum í hitteðfyrra.
Þar af nam hagnaðurinn á fjórða ársfjórðungi 3,4 milljónum evra samanborið við 500 þúsunda tap á sama tíma árið á undan.
Rekstrarhagnaður nam tíu milljónum evra samanborið 7,5 milljónir evra árið á undan. Fram kemur í uppgjöri Marels að gjaldfærður einskiptikostnaður vegna samþættingar hafi numið fimm milljónum evra á fyrri hluta ársins.
Fram kemur í uppgjörinu að sala hafi numið 290 milljónum evra í fyrra, sem er 81 milljón evra en í hitteðfyrra. Það er jafnframt 39 prósenta aukning á milli ára.
Handbært fé í lok árs nam 30,4 milljónum evra sem er um helmingi minna en um áramótin á undan. Breytinguna má rekja til kaupa félagsins á hlutafé í hollensku iðnsamsteypunni Stork og aukningar á hlutafé félagsins. Öll hlutabréf í Stork voru seld um miðjan janúar og skilaði það Marel Food Systems 53 milljónum evra eftir uppgreiðslu skulda.
Þá nam eigið fé 182 milljónum evra í lok árs samanborið við 144 milljónir árið á undan. Eiginfjárhlutfall var 42,5 prósent í lok árs 2007, að því er segir í uppgjörinu.