Fótbolti

Mourinho á skilið að fá á kjaftinn

Jose Mourinho er vanur að stela senunni hvar sem hann kemur
Jose Mourinho er vanur að stela senunni hvar sem hann kemur NordicPhotos/GettyImages

Yfirmaður knattspyrnumála hjá A-deildarliðinu Catania á Ítalíu vandar Jose Mourinho þjálfara Inter Milan ekki kveðjurnar eftir leik liðanna um helgina.

Inter vann leikinn 2-1 þrátt fyrir að leika með 10 menn og þótti sigurmark liðsins nokkuð umdeilt þar sem vafasamt þótti að boltinn hefði farið yfir marklínuna.

Þetta var jafnframt 99. deildarleikur Jose Mourinho í röð án taps á heimavelli.

Pietro Lo Monaco, yfirmanni knattspyrnumála hjá Catania, blöskraði mjög hrokinn í Jose Mourinho bæði fyrir og eftir leik liðanna í Mílanó um helgina.

Mourinho lýsti því yfir fyrir leikinn að hans menn væru betri á öllum sviðum og ættu því að vinna leikinn - og eftir leikinn sagði hann að Inter hefði átt að vinna leikinn 5-1.

"Maður sem lætur svona út úr sér ber enga virðingu fyrir andstæðingum sínum. Hann ber ekki virðingu fyrir Ítalíu eða öðrum þjálfurum í deildinni. Hann hefði átt að sleppa því að segja svona og ég held að hann ætti að líta í eigin barm. Ef hann gerir Inter ekki að meisturum í ár ætti hann að pakka niður og koma sér til heimalandsins. Menn eins og Mourinho hefðu gott af því að fá á kjaftinn," sagði Monaco.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×