Innlent

Starfsmenn þreyttir á tíðum meirihlutaskiptum

Garðar Hilmarsson.
Garðar Hilmarsson.

Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkur, segir starfsmenn borgarinnar orðna þreytta á tíðum meirihlutaskiptum í borginni og sumir hristi hreinlega hausinn yfir stöðunni.

Eins og fram hefur komið hyggja sjálfstæðismenn á samstarf við Óskar Bergsson, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, eftir að hafa slitið samstarfi við Ólaf F. Magnússon borgarstjóra. Enn hefur þó ekki verið tilkynnt formlega um nýjan meirihluta en beðið er eftir því.

„Mér heyrist fólk þreytt á þessu. Við vitum náttúrlega ekki enn hvað þetta þýðir en mér heyrist sumir bara yppta öxlum yfir þessu, það liggur við að fólk sé hætt að vera hneykslað," segir Garðar aðspurður um nýjustu vendingar í borgarmálum.

Garðar bendir á að það fylgi því stress þegar meirihlutaskipti verði á fjögurra ára fresti „en það er verið að bera í bakkafullan lækinn þegar þetta gerist á nokkurra mánaða fresti," segir Garðar.

Garðar segir engan vita hvað nýr meirihluti muni leggja áherslu á en vonandi nái starfsmenn saman með honum. Fyrir liggi að starfsmannafélagið þurfi að gera nýjan kjarasamning við borgina í haust og vonandi trufli breytingarnar ekki þá vinnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×